top of page

Súlur tímarit félagsins

Heim | Súlur tímarit félagsins

Sulur_2011_kapa_page-0001.jpg

Súlur tímarit félagsins

Súlur hófu göngu sína með tveimur heftum árið 1971 og var mikill kraftur í útgáfunni framan af. Alls komu út 22 hefti til ársins 1983 en síðan varð útgáfuhlé til 1987. Það ár kom út eitt hefti og jafnan síðan að undanskildu árinu 2001 þegar útgáfan féll niður. Alls komu út 49 hefti á árunum 1971-2010.   Fimmtugasta heftið kom úr 2011 og síðan árlega og er því tölublaðið árið 2024 það 63. í röðinni.

Upphafsmenn og fyrstu ritstjórar Súlna voru Jóhannes Óli Sæmundsson (1906-1982) og Erlingur Davíðsson (1912- 1990).

Ritstjórar Súlna:
1971-1981 Jóhannes Óli Sæmundsson
1971-1975 Erlingur Davíðsson
1976-1983 Valdimar Gunnarsson
1982-1983 Þórhallur Bragason
1987-1993 Árni J. Haraldsson
1992-1993 Angantýr H. Hjálmarsson
1993-2000 Jóhann Ó. Halldórsson
2002-2004 Einar Brynjólfsson
2005-2012 Haukur Ágústsson

2013-2021 Björn Teitsson

2022-    Jón Hjaltason

(Sjá nánar grein Braga Guðmundssonar,  "Súlur Norðlenskt tímarit" á bls.  143 í Súlum 2011.)

Saga Súlna til 2011

BRAGI GUÐMUNDSSON, PRÓFESSOR Súlur - Norðlenskt tímarit Spegill eyfirskrar fortíðar Þörf mannsins til þess að líta yfir farinn veg er honum eðlis- læg, hún hefur fylgt honum frá örófi og mun gera það um alla framtíð. Fortíðin er órjúfanlegur hluti verundar okkar, án vitneskju um hana er tilvistarmynd okkar óheil. Foreldrar hafa sagt börnum sínum, afar og ömmur barnabörnum, sagnaþulir þeim sem hlustað hafa, skrásetjarar hafa kroppað tákn í leir, párað á papýrus ellegar skinn, bókhneigðir hafa grúskað og birt niðurstöður rannsókna sinna. Þessi baksýnis- þörf er óháð stund og stað, hún er óháð aðstæðum og um- búnaði, hún er römm og brýtur sér ætíð farveg þótt hindranir virðist ærnar. Fræðingar fullnægja þessari þörf undir flaggi sérgreina sinna, almenningur undir merkjum fróðleiksfýsnar. Í grunninn rekur báða aðila hið sama, ósjálfráð hvöt til þess að vita meira og miðla vitneskju til annarra. Prentaðir farvegir sagnfræði, sagnaþátta og sagnalistar nú á dögum eru margir og fjölbreytilegir. Allir þekkja eitthvað til almennra yfirlitsrita um sögu þjóða eða ríkja og er þar nærtækast að minnast kennslubóka sem lagðar eru fyrir nem- endur í skólum. Afmarkaðri eru bækur sem fjalla um stakar jarðir, byggðir eða byggðarlög. Slíkar bækur hafa löngum notið ákveðinnar hylli vegna þess að þær gefa gaum að efni og sögusviði, persónum og leikendum sem margir þekkja og geta auðveldlega samsamað sig við. Fyrstu byggðarsöguna sem kalla má því nafni skrifaði og gaf út séra Bjarni Þorsteinsson á Siglufirði árið 1918 um heimabyggð sína. Fimm árum síðar sendi Klemens Jónsson frá sér bók um sögu Grundar í Eyjafirði og árið 1929 bætti hann um betur með tveggja binda verki um Reykjavík. Ári síðar birtist fyrsta tilraunin til ritunar heildstæðrar héraðs- sögu í miklu ritgerðasafni um Vestur-Skaftafellsýslu sem Björn O. Björnsson bjó til prentunar. Undirtitill þeirrar bók- ar er um margt lýsandi um innihaldið, „drög til lýsingar á ís- lensku þjóðlífi mótuðu af skaftfellskri náttúru sett fram í rit- gerðum af 40 fulltrúum skaftfellskrar alþýðu.“ Hvort heldur þessi titill hafði einhver áhrif út fyrir síður bókarinnar eða ekki fór svo að á fjórða áratug aldarinnar var tekið til við að stofna sérstök átthagafélög á höfuðborgarsvæðinu af brott- fluttu landsbyggðarfólki, sem vildi bæði halda tengslum sín í milli og við heimahagana, en einnig leggja sitt af mörkum til varðveislu hvers kyns minja og upplýsinga um horfna og/eða hverfandi tíma. Þessi félög létu mörg duglega til sín taka við tímarita- og bókaútgáfu og fóru þar fyrir Árnesingafélagið og Félagið Ingólfur sem bæði settu byggðarsögurannsóknir á stefnuskrá sína árið 1934. Fyrsta héraðssögutímaritið sem nefna má því nafni var Breiðfirðingur sem hóf göngu sína árið 1942, gefinn út af samnefndu félagi í Reykjavík. Í kjöl- farið sigldu Árbók Barðastrandarsýslu 1948 og Ársrit Sögu- félags Ísfirðinga 1956. Þau rit sem síðar komu drógu mikinn dám af þessum þremur, einu eða fleirum í senn. Viðfangsefni héraðsritanna geta verið og eru af öllu tagi, það eina sem sameinar er að efnið er allt átthagatengt með einhverjum hætti. Sögulegar frásagnir og endurminningar skipa jafnan drjúgan sess og kveðskapur á greiða leið á síður þeirra. Sum birta smásögur og/eða fréttatengt efni úr héraði. Mest af efni þessara rita er samið sérstaklega, stundum eftir beiðni ritstjóra, annað er boðið fram tilviljunarkennt. Stund- um er úr miklu að moða, sem er auðvitað ákjósanlegast, en algengara mun að ganga þurfi eftir frambærilegu efni til þess að fylla síðurnar. Útgefendur eru jafn sundurleitir og efnis- innihaldið, til dæmis átthagafélög, söfn, ungmennasambönd og sögufélög. Um þessa útgáfu alla hefur nokkuð verið skrif- að og skal sérstaklega bent á greinargóð yfirlit þeirra Stein- gríms Jónssonar og Friðriks Gunnars Olgeirssonar í Land- námi Ingólfs 1985, Ráðstefnuriti Söguþingsins 1997 og í tíma- ritinu Sögu árið 2000. Í þessu greinarkorni verður athyglinni beint að vettvangi þessara orða, héraðsritinu Súlum. Það hefur frá fyrstu tíð borið breiðan undirtitil, „norðlenskt tímarit“, en er í reynd fyrst og síðast eyfirskt að efni. Önnur tímarit sem þjóna sama svæði eða hlutum þess eru Norðurslóð (frá 1977) sem gefin er út í Svarfaðardal og fjallar einkum um svarfdælsk viðfangs- efni, Heimaslóð (frá 1983) sem birtir efni úr Möðruvalla- klaustursprestakalli og Árbók Þingeyinga (frá 1958) sem eðli máls samkvæmt segir frá mörgu af austurströnd Eyjafjarðar. Ótalið er Heima er bezt (frá 1951) sem lengi var gefið út á Ak- ureyri og dró mikinn dám af næsta umhverfi sínu. Það er samt ekki í hópi hefðbundinna héraðsrita (og var það líklega aldrei), til þess eru viðfangsefnin of víða að. Súlur hófu göngu sína með tveimur heftum árið 1971 og var mikill kraftur í útgáfunni framan af. Alls komu út 22 hefti til ársins 1983 en síðan varð útgáfuhlé til 1987. Það ár kom út eitt hefti og jafnan síðan að undanskildu árinu 2001 þegar út- gáfan féll niður. Alls komu út 49 hefti á árunum 1971-2010 og þetta, árið 2011, er hið fimmtugasta. Upphafsmenn og fyrstu ritstjórar Súlna voru Jóhannes Óli Sæmundsson (1906-1982) og Erlingur Davíðsson (1912- 1990). Þeir voru báðir ættaðir af Árskógsströnd en bjuggu á Akureyri þegar til útgáfunnar kom. Jóhannes Óli var kennari og skólastjóri að ævistarfi og námsstjóri Austurlands um skeið auk margra annarra félags- og trúnaðarstarfa. Hann stofnaði og rak fornbókaverslunina Fögruhlíð á Akureyri og það var hún sem varð útgefandi Súlna fyrstu níu heftin, síðan gaf Jóhannes Óli sjálfur út tíunda heftið en eftir það kom út- gáfan í hlut Sögufélags Eyfirðinga. Um Jóhannes Óla látinn má meðal annars lesa minningarorð Erlings Davíðssonar í 21.-22. hefti Sú/na, bls. 3-4. Hinn ritstjórinn, Erlingur Davíðsson, var búfræðingur frá Hvanneyri 1935. Áður hafði hann numið og unnið eitt ár á tilraunastöð Búnaðarfélags Ís- lands á Sámsstöðum í Fljótshlíð og seinna sótti hann nám í Garðyrkjuskóla ríkisins í Hveragerði. Hann vann á annan áratug við garðyrkju á Brúnalaug í Eyjafirði, gerðist starfs- maður Dags á Akureyri árið 1950 og ritstjóri hans 1956. Ævi hans var helguð fjölbreyttum ritstörfum upp frá því. Það kom í hlut Erlings að fylgja fyrsta hefti Súlna úr hlaði. Hann gerði grein fyrir áformum og fyrirætlunum þeirra Jóhannesar Óla með útgáfunni og sagði meðal annars: Rit þetta, Súlur, sem nú hefur göngu sína, á að vera norð- lenzkt rit og efni í það valið samkvæmt því. Það á að flytja al- þýðlegan fróðleik, þjóðsögur og ævintýri, sagnir, dulrænar frá- sagnir og margt fleira Með hverju ári glatast sögur og sagnir með þeim öldnu, er kveðja og margskonar þjóðlegur fróðleikur. Ýmsu af þessu er unnt að safna. Við teljum þá söfnun mikils virði, og svo mikið björgunarstarf, að nokkru sé til þess hættandi. Þótt við viljum fremur horfa fram á veginn og miða störf okkar við framtíð- ina, vitum við og finnum, að fortíðin býr með okkur og að við erum afsprengi hennar og arftakar. Jafnframt vitum við, að öll framvinda, sem að er keppt og við viljum taka þátt í, er á fortíðinni byggð og þeim menningararfi, er okkur féll í skaut. Við þurfum því að þekkja söguna og sagnirnar, starf feðranna og lífshætti, og við megum aldrei gleyma ætt okkar eða sögu í hinu mikla kapphlaupi um lífsins gæði Hinn sögulegi og alþýðlegi fróðleikur, sem við ætlum að safna, er að mestu utan við svið lærdóms- og fræðimanna, en getur engu að síður verið mikilvægur fyrir framtíðina. Og fyrir samtíðina á hann að vera bæði gagn og gaman [Það] verða til sögur og ævintýri í dagsins önn, svo að segja á hverju byggðu bóli, er fáir hirða um að skrá, á meðan traust- ar heimildir eru nærtækar. Þetta ágæta efni lifir um stund í munnlegri geymd fleiri eða færri manna, en hverfur svo fyrr en varir að fullu og öllu. Við biðjum sem flesta um aðstoð við að bjarga því, sem bjargað verður á þessu sviði. Þessi ávarpsorð Erlings eru um margt eftirtektarverð og merkileg stefnuskrá þótt ekki tækist að fylgja öllum áherslu- atriðum hennar eftir til langframa. Fyrsta atriðinu, norð- lenskri áherslu, var fylgt eftir í þessu sama hefti með því að Gísli Guðmundsson (1903-1973) alþingismaður skrifaði fyrstu greinina, „Norðan fjalla.“ Gísli var Langnesingur að uppruna, var lengi þingmaður Norður-Þingeyinga og síðan Norðurlandskjördæmis eystra frá 1959. Í grein sinni rekur Gísli valda þætti úr sögu Norðlendingafjórðungs frá önd- verðu, lýsir náttúrufari og minnist atriða úr félagssögu nítjándu aldar. Frásögn hans er að vonum jákvæð og margt sem hann telur Norðurlandi og Norðlendingum til ágætis. Síðasta efnisgrein Gísla sýnir vel breiða sýn hans á viðfangs- efnið: Í nútíð og sögu er landið og lífið norðan fjalla undirstaða þess, sem kalla má norðlenzk fræði: Landið, eins og það var, er og er líklegt til að verða, byggt og óbyggt, með fjörðum sín- um, flóum og djúpmiðum. Líf manna og málleysingja, eins og það hefur komið fram í baráttunni fyrir tilveru sinni og ham- ingju, eða birtist í skuggsjá þeirra, sem um það hafa fjallað fyrr og síðar, stundum á þann hátt, er þeir vissu sannast og réttast, stundum með aðstoð ímyndunarafls og skáldgáfu. En í vitund hinna skyggnu hefur á öllum öldum og um allt land, ósýnileg veröld og umdeild, verið snar þáttur af þessu lífi: Vættur í fjalli, álfur í hól, dvergur í steini, gestur úr dánar- heimum - einnig hér norðan fjalla (bls. 8). Við lestur þessara orða er rétt að hafa hugfast að Gísli hafði langa reynslu af ritstörfum og ritstýringu. Hann var til dæmis annar þeirra sem safnaði til Þingeyskra ljóða árið 1940 og síðar (1965) skrifaði hann Árbók Ferðafélags Íslands um Norður-Þingeyjarsýslu. Hann hafði þar með glöggt auga fyrir bæði því sem allir gátu séð og því sem fleirum var hulið. Menningin var í hans augum margslungið fyrirbæri og rætur hennar víða. Í formálsorðum Þingeyskra ljóða komust Gísli og séra Friðrik A. Friðriksson meðal annars svo að orði að ljóðin túlki allar mögulegar kenndir og viðhorf, þau séu í raun héraðssaga. Þessi áhersla á fjölbreytileikann og mismunandi upp- sprettulindir er meðal þess sem einkennir fyrstu árgangana af Súlum. Svo dæmi séu tekin úr fyrstu tveimur heftunum gat þar að líta fyrirsagnir á borð þessar: „Tveir draumar og fiski- róður,“ „Lækningamiðillinn á Einarsstöðum,“ „Furður og fyrirbæri,“ „Huldukona í Skagafirði“ og „Dulrænar sagnir úr Svarfaðardal.“ En þegar frá leið hörfaði efni af þessu tagi og hefur verið fáséð síðustu árin. Annað sem hvarf - og það mjög fljótt - var hin samnorð- lenska áhersla þótt einstaka greinar úr Skagafirði og Þingeyj- arsýslum birtust fyrstu árin. Vísbending um þessa áherslu lif- ir hins vegar enn sem undirtitill er á sér lítt eða enga raun- verulega skírskotun lengur. Það var eðlilegt að þetta gerðist því íbúar annarra héraða lögðu ritinu nánast ekkert til af efni, sinntu frekar um heimavöll sinn. Metnaðarfull sýn frum- herjanna í vestur og austur tók þannig brátt að einskorðast við Eyjafjörð og fjallahring hans. Það hefði líklega fremur tal- ist til tíðinda ef tekist hefði að marka ritinu víðfeðmara við- fangs- og útbreiðslusvæði en tíðkast hefur almennt um hér- aðsrit. Stefnumörkun Erlings Davíðssonar byggði um margt á traustum grunni, norðlensk fræðahefð er gömul og undir- stöður hennar styrkar. Ástæðulaust er að rekja þá sögu langt aftur en eftir að tekið var að skrásetja í anda upplýsingarinn- ar er auðvelt að nefna brautryðjendur á borð við Jón Espólín (1769-1836) og Gísla Konráðsson (1787-1877) sem báðir hafa látið eftir sig ómetanleg stórvirki. Og síðan má ekki gleyma eljumönnum á borð við Þorstein M. Jónsson (1885- 1976), séra Jónas Jónasson frá Hrafnagili (1856-1918), Jónas Rafnar (1887-1972), séra Benjamín Kristjánsson (1901- 1987) og Steindór Steindórsson frá Hlöðum (1902-1997) svo aðeins fáeinir séu nefndir. Bóka- og tímaritaútgáfa stóð lengi traustum fótum á Akureyri og þar áttu vinsæl rit á borð við Nýjar kvöldvökur (1906-1962), Grímu (1929-1950) og Grímu hina nýju (1964-1965) að ógleymdu fyrrnefndu Heima er bezt heimkynni sín. Að þessu sögðu er kannski ekki að undra að í stefnumörk- un Erlings birtist skýr söguvitund. Hann lítur til baka, telur vitneskju um fortíðina nauðsynlega undirstöðu þess að nútíð- in verði skilin og þar með skapist sjónarhóll til framtíðar. Framsetningin er í hæsta máta nútímaleg og fellur vel að þeim viðhorfum sem hátt fara nú á dögum, réttum fjörutíu árum síðar. Hið síðasta sem hér skal staldrað við úr margnefndum ávarpsorðum Erlings Davíðssonar árið 1971 er áhersla hans á varðveislu þekkingar. Honum var í mun að skrásetja upplýs- ingar um liðna tíma eftir fróðleiksfólki, hann vissi að hver gengin kynslóð tekur með sér margt sem glatast um leið og lífshlaupi lýkur. Þessu varðveislusjónarmiði var hann trúr til dauðadags eins og átján binda ritsafn hans, Aldnir hafa orðið (1972-1989), er gleggstur vitnisburður um. Þessi hugsun lifði síðan áfram góðu lífi meðal ritstjóra Súlna eftir að Erlingur lét af því starfi árið 1975 vegna anna við önnur verkefni. Það má meðal annars sjá af brýningum Valdimars Gunnarssonar (f. 1947) 1977 og 1983. Í fyrra sinnið hvatti hann til þess að hver hygði að sínu og óskaði eftir því að lesendur legðu sitt af mörkum „til að varðveita fróðleik um liðna tíð. Sagan er aldrei séreign nokkurra grúskara heldur eign og viðfangsefni allra (2. hefti, aftari kápusíða).“ Engu að síður gekk á köflum illa að afla efnis og árið 1992 minntu ritstjórar á hverfulleika tímans í bréfi til lesenda sinna: Það eyðist allt sem af er tekið og nú eru þeir sem hvað dug- legastir hafa verið við að færa okkur efni til birtingar búnir að ausa að mestu upp úr sínum viskubrunnum. Þess vegna heit- um við á alla lesendur og velunnara Súlna að hlaupa í skarðið og senda okkur sem mest efni til birtingar. Það mega vera gamlar sagnir, sem ekki hafa komið á prent fyrr svo vitað sé, nýlegar frásagnir af óvæntum atburðum og allt þar á milli. Einnig eru smellnar vísur, þulur og kvæði vel þegin. Frásagnir af sérkennilegu fólki hafa margir gaman af að lesa og sama má segja um hnyttin svör eða skrítin (bls. 160). Þessi orð geta bent til þess að ritstjórarnir tveir, báðir komnir á áttræðisaldur, hafi litið svo á að komið væri að ákveðnum þátta- og kynslóðaskilum við útgáfuna. Viðhorf af því tagi voru reyndar ekki bundin við aldur og minna má á að þegar útgáfan féll niður áratug fyrr, 1983, var ritstjórnin í höndum tveggja ungra manna og engin sérstök dauðamerki voru sýnileg á síðasta hefti þeirra. Þó skrifuðu þeir ávarp til lesenda sinna þetta ár og þar má e.t.v. greina vísi þess að ekki var allt sem skyldi. Eftir að hafa þakkað fyrir góðar mót- tökur við hefti síðasta árs sögðu ritstjórarnir: „Enn sem fyrr eiga Súlur nokkra trygga vini sem láta þeim efni í té, en þess- um mönnum mætti fjölga. Ekki er sagt svo vegna þess að þeir séu ógóðir sem fyrir eru, heldur vegna hins að leiðigjarnt get- ur orðið að þurfa einlægt að ganga bónarveg til hinna sömu og: „ljúfur verður leiður / ef lengi situr / annars fletjum á“ (innan á fremri kápusíðu).“ Ritstjórar Súlna 1971-2010 eru orðnir níu talsins, karl- menn allir með tölu. Þeir eru: NafnFæðingar-/dánarár Ritstjóratímabil Fjöldi hefta Jóhannes Óli Sæmundsson1906-19821971-198120 Erlingur Davíðsson1912-19901971-197510 Valdimar Gunnarsson1947-1976-198312 Þórhallur Bragason1948-1982-19832 Árni Júlíus Haraldsson1915-20021987-19937 Angantýr Hjörvar Hjálmarsson1919-19981992-19932 Jóhann Ólafur Halldórsson1964-1993-20008 Einar Aðalsteinn Brynjólfsson1968-2002-20043 Haukur Ágústsson1937-2005-6 Þegar litið er yfir þennan hóp má gróflega aldursflokka hann í tvennt eftir aldri ritstjóranna þegar þeir tóku við verki. Í eldri hópnum eru fimm ritstjórar, þar af fjórir sem voru fæddir fyrir 1920. Erlingur var þessara yngstur þegar hann byrjaði, 59 ára, en Árni og Angantýr elstir, 72 og 73 ára. Elst- ur í starfi varð Árni, 78 ára, en aðrir sem hafa verið að fram yfir sjötugt eru Jóhannes Óli og núverandi ritstjóri, Haukur Ágústsson. Í yngri hópnum eru þeir frændurnir, Valdimar og Þórhallur, sem voru 29 og 34 ára er þeir tóku við, nákvæm- lega eins og þeir Jóhann Ólafur og Einar er þeir tóku við taumunum. Allir fjórir hættu þeir á aldrinum 35-36 ára. Ald- ursmunur þessara tveggja ritstjórahópa er óneitanlega mikill en erfitt er að segja til um hvort eða hvernig hann hefur skilað sér á síðum tímaritsins. Annað atriði er að allir ritstjórarnir nema einn eiga að baki almenna menntun og flestir að auki sérmenntun af einhverju tagi. Aðeins Árni Júlíus fellur utan þessa hóps. Hann var lengi bóndi og síðan starfsmaður Kaupfélags Eyfirðinga, kominn á eftirlaun er ritstjórastarfið kallaði. Jóhannes Óli var barna- og unglingakennari en starfaði aðallega sem út- gefandi og fornbóksali er hann stofnaði og ritstýrði Súlum; Erlingur var bú- og garðyrkjufræðingur en vann sem ritstjóri og rithöfundur á sínum ritstjóraárum; Valdimar var og er menntaskólakennari á Akureyri (íslenska, saga); Þórhallur er íslenskufræðingur og grunnskólakennari en vann á rit- stjóraárunum sem héraðsskjalavörður á Akureyri; Angantýr Hjörvar var fyrst bóndi, tók síðan kennarapróf og kenndi lengi í Sólgarði og á Hrafnagili, kominn á eftirlaun á sínum ritstjóratíma; Jóhann Ólafur er stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri, vann sem blaðamaður á Degi þegar hann varð ritstjóri á Súlum, ritstjóri Ægis frá 1996, stofnaði og vann við eigið almannatengslafyrirtæki síðustu misserin; Einar er sagnfræðingur og var kennari við Verkmenntaskólann á Akureyri meðan hann ritstýrði; Haukur er guðfræðingur og framhaldsskólakennari á eftirlaunum sem lengi hefur fengist við fjölþætt ritstörf. Á fyrra útgáfuskeiði Súlna var engin ritnefnd starfandi við hlið ritstjóra en við endurreisnina 1987 var sá háttur tekinn upp og hefur svo verið síðan. Seta í ritnefnd og á ritstjórastóli hafa ætíð farið saman. Í ritnefnd 1987-2010 hafa níu setið, bætt er við upplýsingum um þá einstaklinga sem ekki hafa verið áður nefndir: Angantýr Hjörvar Hjálmarsson 1987- 1994; Árni Júlíus Haraldsson 1987-1993; séra Bjartmar Kristjánsson (1915-1990) 1987-1990; Jóhann Ólafur Hall- dórsson 1991-2000; Hanna Rósa Sveinsdóttir sagnfræðingur (f. 1966) 1995-2010; Jón Hjaltason sagnfræðingur (f. 1959) 1995-2010; Helga Steinunn Hauksdóttir sagnfræðingur (f. 1965) 1995-1999; Einar Aðalsteinn Brynjólfsson 2002-2004; Haukur Ágústsson 2005-2010. Hér bætast fjórir einstaklingar í hóp ritstjóranna og þar með er kominn sá þrettán manna hópur sem staðið hefur næst útgáfu Súlna í fjörutíu ár. Þrjú þeirra, sem hér eru nefnd í fyrsta skipti, eru sagnfræðingar og hafa öll unnið við grein sína eða skyld störf, hinn fjórði var vel metinn prestur í Eyja- firði um langt árabil. Þá er eftirtektarvert að tvær konur koma nú loks við sögu og önnur þeirra er starfandi í ritnefndinni enn. Það hefur þegar komið fram, a.m.k. með óbeinum hætti, að stofnendur Súlna og ýmsir velunnarar tímaritsins áttu mikið efni á síðum þess fyrsta kastið. Þetta staðfestist glöggt þegar litið er til tíu fyrstu heftanna, sem Erlingur Davíðsson og Jóhannes Óli stýrðu báðir, og reynt að höfundarmerkja sem mest af efni þeirra. Það er samt enginn hægðarleikur að ákvarða hverjum beri hvað því oft er skráð eftir heimildar- mönnum og allur gangur á því hverjum endanleg ritsmíð er eignuð. Hér er valin sú leið að eigna skrásetjaranum að jafn- aði frásagnir af þessu tagi og þar er hlutur Erlings ritstjóra mikill. Ennfremur er vandasamt hverju eigi að sleppa því mörg fyrstu árin var mikið af smælki hvers konar, til dæmis var stökum, tilsvörum og gamanmálum skotið inn þar sem rúm var. Þessu efni er að jafnaði sleppt við þá útreikninga, sem kynntir eru hér á eftir, þótt vitað sé í mörgum tilvikum hvaðan það var runnið. Ástæðan er sú að viðkomandi ætluðu sér aldrei að leggja efni sitt á borð fyrir almenning, það varð hins vegar á vegi ritstjóranna og þeir kusu að nýta það til uppfyllingar. Þetta hafði verið og var lengi alsiða við útgáfu af þessu tagi en sést minna á síðari árum. Að þessum takmörkunum sögðum og með öllum fyrirvör- um um að önnur talning út frá öðrum viðmiðum geti gefið aðrar niðurstöður eru lykiltölur mínar um fyrstu tíu heftin, 1971-1975, þessar: •Heftin eru að meðaltali 120 blaðsíður að lengd. •Efnisval er ákaflega fjölbreytt og segja má að hvaðeina sem gerst hefur (eða á að hafa gerst) í Eyjafirði hafi átt greiðan aðgang til birtingar. Þar með má fullyrða að fjöl- margt sem ella hefði glatast hafi fundið sér varðveislufar- veg í Súlum. •Höfundarmerktar greinar og kvæði eru samtals 171 eða um sautján að meðaltali í hefti og hver þeirra um sjö blaðsíður að lengd. Af þessum greinum eru 158 eignaðar körlum (92%) en þrettán konum (8%). •Nafngreindir höfundar eru samtals 82. Karlar eru 69 (84%) en konur þrettán (16%). •Af einstökum höfundum á Erlingur Davíðsson flestar greinar, 37 talsins, og hinn ritstjórinn, Jóhannes Óli, 25 greinar. Samanlagt eiga þeir tveir 62 greinar eða um 36% heildarfjöldans. •Af öðrum höfundum á Eiður Guðmundsson (1888- 1984), bóndi og fræðimaður á Þúfnavöllum, flestar grein- ar, sjö talsins (4%). •65 höfundar (38%) eiga aðeins eina grein hver og í þeim hópi eru allar konurnar. •Heimildanotkun og heimildatilvísanir eru yfirleitt af skornum skammti. Almennt má þó segja að ritstjórarnir tveir, Erlingur Davíðsson og Jóhannes Óli Sæmundsson, hafi sinnt best um slíkt. Þess er ekki kostur að gera öllum heftum Súlna jafngóð skil og þessum fyrstu tíu en til samanburðar skal nú litið með sams konar hætti til hinna síðustu tíu og kannað hvort um- talsverðar breytingar hafa orðið á ritinu í tímans rás. Sömu atriði og nefnd eru hér að framan eru áfram til umfjöllunar. •Heftin eru stærri en áður, að meðaltali 160 blaðsíður hvert, og hefur svo verið frá 1989. •Efnisval er fjölbreytt sem fyrr. Sú meginbreyting hefur samt orðið að greinum hefur fækkað og þær lengst að sama skapi. Smælki af ýmsu tagi er nær horfið. •Höfundarmerktar greinar og kvæði eru samtals 102 eða um tíu að meðaltali í hefti og hver þeirra að jafnaði um sextán síður að lengd. Níutíu (88%) þessara greina eru eignaðar körlum en tólf konum (12%). •Nafngreindir höfundar eru samtals 73. Karlar eru 63 (86%) en konur tíu (14%). •Af einstökum höfundum á Júlíus Kristjánsson (f. 1930), meistari í netaiðn og forstjóri á Dalvík, flestar greinar, sjö talsins. Næstur er Ólafur Grímur Björnsson (f. 1944), læknir í Kópavogi, með fimm greinar. •58 höfundar (79%) eru með eina grein hver. Þeirra á með- al eru allar konurnar nema ein. •Mun betur er gerð grein fyrir heimildum í þessum tíu heftum en á upphafsárunum og liggja örugglega til þess ýmsar ástæður. Í fyrsta lagi er það krafa tímans um ná- kvæmari vinnubrögð við alla útgáfu. Í öðru lagi er ritstýr- ing meiri en áður og kröfur til höfunda meiri. Í þriðja lagi er formleg menntun höfunda almennt meiri en fyrr og kunnátta þeirra til verka að sama skapi víðtækari. Þannig eru oftast tveir eða fleiri háskólamenntaðir höfundar í hverju þeirra tíu hefta sem hér eru til skoðunar. Til þess að gefa nokkra hugmynd um þá miklu fjölbreytni sem Súlur veita lesendum sínum skulu nú nefndar nokkrar viðamiklar greinar frá síðustu árum. Fyrst er farin sú leið að fylgja höfundum en ekki árum um þá sem ötulastir hafa verið. Birgir Þórðarson (f. 1934), bóndi á Öngulsstöðum, á ítar- lega og vandaða grein um áveitu- og framræsluframkvæmdir á Staðarbyggðarmýrum árið 2000 og aðra slíka um Kristnes- hæli 2008. Áður hafði hann skrifað öfluga grein um sögu Munkaþverár í Súlur 1999. Birgir er ótvírætt meðal allra öfl- ugustu alþýðufræðimanna í héraði (og þótt víðar væri leitað) nú um stundir. Hermann Óskarsson (f. 1951), lektor við Háskólann á Akur- eyri, skrifaði um mannfjöldaþróun á Akureyri fyrir 1940 í Súlur 2000 en hafði áður átt langar greinar um stéttaskiptingu á Akureyri 1860-1940 (1997) og síldveiðar Norðmanna (1998). Björn Vigfússon (f. 1955), menntaskólakennari á Akureyri, fjallaði ítarlega um Gásakaupstað í íslenskum fornritum árið 2002 en áður hafði Margrét Hermanns-Auðardóttir (f. 1949) fornleifafræðingur farið rækilega yfir fornleifarannsóknir á sama stað í Súlum 1987. Unnur Birna Karlsdóttir (f. 1964) sagnfræðingur fjallaði árið 2003 um Akureyri á liðinni tíð og studdist þar meðal annars við minningar þriggja roskinna bæjarbúa. Áður hafði Unnur Birna skrifað efnismikla grein í Súlur um Stóra-Eyrar- land árið 1999 og byggði hún þar meðal annars mikið á minn- ingum Bjargar Baldvinsdóttur (f. 1915). Baldur Jónsson (1930-2009), prófessor við Háskóla Ís- lands, skrifaði árið 2003 um skíðaferð norður Kjöl hálfri öld fyrr, um Látra-Björgu árið eftir og þætti úr sögu Hvassafells- ættar 2005. Júlíus Kristjánsson á Dalvík skrifaði einnig um Látra- Björgu í Súlur árið 2005 og síðan hafa birst eftir hann margar greinar, til dæmis um Upsaströndina á öldum áður (2006); um Jón Loftsson skipherra (2007); um Bjarna Pálsson land- lækni (2008) og bæjavísur Eiríks Pálssonar í Svarfaðardal (2009-2010). Um þær vísur hafði Árni J. Haraldsson áður átt grein í Súlum 2008. Ólafur Grímur Björnsson í Kópavogi hefur verið einna fyrirferðarmestur höfunda síðustu ár og birt umfangsmiklar greinar í fimm heftum 2004-2006 og 2009-2010. Viðfangs- efnin hafa flest tengst innbyrðis: Krossanesverkfallið 1930; Þriðja þing S.U.J.; Hallgrímur Hallgrímsson, kreppan og fas- isminn (þrjár greinar). Af öðrum höfundum og viðfangsefnum þeirra má til dæm- is nefna langa grein Jóns Þórs Benediktssonar (f. 1972) á Ytri-Bakka um Hjalteyri (2004); nokkrar greinar um Arthur Gook og ævistarf hans (2006); minningar Viðars Tryggva- sonar (f. 1935) (2007-2008); grein Þórgnýs Þórhallssonar (f. 1933) um byggingarsögu Freyvangs í Eyjafjarðarsveit (2007); grein Haralds Bernharðssonar (f. 1968) um sérkenni í beygingu nokkurra örnefna sama ár; grein um sveitarblaðið Baldur í Öngulsstaðahreppi eftir Önnu Sigríði Halldórsdótt- ur (f. 1956) árið 2008 og aðra grein í sama hefti um frægar skeytasendingar Páls Kolka til Eyfirðinga árið 1945 í saman- tekt þess sem þetta skrifar. Frá síðustu tveimur árum skal sér- staklega bent á ítarlega grein Þórarins Hjartarsonar (f. 1950) um skipasmíðar við Eyjafjörð 1850-2000 í Súlum 2009 og aðra í sama hefti um Sigfús Valtý Þorsteinsson í Syðra-Kálfs- skinni eftir Svein Jónsson (f. 1932) frá Ytra-Kálfsskinni. Árið 2010 skrifaði Guðmundur Páll Steindórsson (f. 1946) ræki- lega um Þorlák Hallgrímsson í Skriðu og Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir (f. 1966) um sameiningu Verkakvennafélags- ins Einingar og Verkamannafélags Akureyrarkaupstaðar árið 1963. Þessi upptalning sýnir glögglega hversu ólík og óskyld efni rata á síður Súlna. Viðfangsefnin eru vissulega öll söguleg í einhverjum skilningi en þar fyrir utan er það hin landfræði- lega umgjörð sem afmarkar og sameinar í senn. Sögusviðinu deila allir, sjóndeildarhringurinn er sá sami, en sjónarhornin ólík. Þetta er mikilvægt að hafa í huga og nú skal stuttlega litið til þeirra staða sem ritstjórar hafa kosið að kynna lesend- um sínum hverju sinni. Það hefur nefnilega alltaf verið mynd á kápusíðu, langoftast ljósmynd af húsi/húsum eða öðrum mannvirkjum. Fyrirfram mætti ætla að tekist hafi að dreifa þessum myndum þokkalega jafnt um allt hérað á þeim 49 kápum sem hér eru til athugunar en svo reynist ekki. Þessi mismunur er sérstaklega sláandi um þéttbýlisstaði við Eyja- fjörð. Samtals hafa birst þrettán kápumyndir frá Akureyri, tvær af hvorri eyju, Hrísey og Grímsey, ein af Hauganesi og önnur af Hjalteyri. Allt annað þéttbýli fellur utan garðs hvað þetta varðar. Aðrar myndir eru flestar ýmist landslagsmyndir, myndir af þekktum sögustöðum og/eða kirkjum. Þær dreifast líka frem- ur ójafnt um héraðið. Stærstu svæðin, sem eru að mestu eða öllu afskipt, eru Árskógsströnd, Arnarneshreppur, Öxnadal- ur, Kræklingahlíð og drjúgir hlutar Eyjafjarðarsveitar (að undanskildum þremur kirkjustöðum, tveimur bújörðum og einu eyðibýli). Munkaþverá prýðir fjórar kápur en þaðan í norður að telja er engin mynd úr austanverðum Eyjafirði allt út að Gjögurtá. Stundum tengjast myndir tilteknu efni á síð- um viðkomandi rits, í önnur skipti ekki. Líklegt er að hrein tilviljun hafi oft ráðið myndavali á kápusíðum en vert er að benda á að slíkar myndir eru gjarnan ein augljósasta tenging- in milli ritstjórnar og lesenda og þar með mikilvægt að hyggja vel að. Mikil hlutdeild Akureyrar í kápumyndum speglar vel aðal- markaðssvæði Súlna. Á áskrifendaskrá ritsins árið 2010 sést að fastir kaupendur voru samtals nokkuð á fimmta hundrað, þar af 45% á Akureyri. Í dreifbýli umhverfis Akureyri (póst- númer 601) bjuggu 18% áskrifenda, í Dalvíkurbyggð (póst- númer 620 og 621) 5% og á Siglufirði (póstnúmer 580) tæp 3%. Eftirtektarvert er að á Ólafsfirði, fjórða stærsta þéttbýlis- stað héraðsins, voru aðeins tveir áskrifendur, meira en tvöfalt færri en í Hrísey. Áskrifendur búsettir í Eyjafirði voru sam- tals um 73% heildarinnar, í Þingeyjarsýslum voru þeir tíu (2,4%), þrettán (3,2%) í Skagafirði, einn í Húnavatnssýslu. Aftur á móti voru tæp 15% áskrifenda á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum, væntanlega flestir ættaðir úr héraði. Þessi búsetudreifing áskrifenda sýnir vel hversu svæðis- bundin rit á borð við Súlur eru. Þau eru skrifuð fyrir ákveð- inn heimamarkað sem bæði þarf að erja og endurnýja. Það hefur reynst mörgum vandasöm þraut en því miður eru engar upplags- eða útbreiðslutölur fyrirliggjandi um önnur sam- bærileg tímarit til samanburðar. Karlar voru 71% áskrifenda Súlna árið 2010, konur 20% og ýmiss konar fyrirtæki, bókasöfn og stofnanir 9%. Þessar tölur, svo mikilvægar sem þær eru, veita samt litlar upplýs- ingar um hverjir það raunverulega eru sem lesa héraðssögu- leg rit á borð við Súlur þótt líklega fari þar aðallega áhuga- fólk um gengna tíð. Á slíku fólki mun útgáfan áfram byggja en jafnframt er mikilvægt að muna að lestur svona tímarita einskorðast alls ekki við útgáfutíma þeirra, þeim er ætlað annað og stærra hlutverk en stundarafþreyingin ein. Nokkur hluti efnisins er vissulega þeirrar gerðar að hann er ekki unnt að framreiða nema á afmörkuðum tíma vegna þeirra tak- markana sem mannsævin setur, annað er byggt á heimildum sem eyðast ekki. En í hverri tjáningu felst andardráttur þess tíma sem höfundurinn lifir, andblær sem er mikilvægt að finna og reyna að skilja. Þess vegna eru Súlur á einn veg í dag, annan á morgun. Súlur voru stofnaðar af körlum, þeim hefur verið stýrt af körlum, þær hafa að mestu verið skrifaðar af körlum og lík- lega meira lesnar af körlum en konum. Þess háttar hlutverka- skipan kynjanna var algeng á árum áður en stingur óneitan- lega nokkuð í stúf við upphaf nýrrar aldar og árþúsunds. Verið getur að sérstakt átak þurfi til að breyta þessari stöðu en samantektin hér að framan sýnir að hægt hefur miðað í þá átt, jafnvel þótt ungar menntakonur séu nú teknar að sjást innan ritnefndar og meðal höfunda. Breytingar hafa orðið greinilegri á öðru sviði, því sem teng- ist eindregnu markmiði stofnendanna um að varðveita „al- þýðlegan fróðleik“ í læsilegum og aðgengilegum búningi. Því stefnumiði hefur verið fylgt samviskusamlega eftir og svo mun væntanlega verða áfram. En á sama tíma hefur það líka gerst að háskólamenntað fólk hefur haslað sér völl á síðum tímaritsins eftir því sem árunum hefur undið fram. Þar eru á ferð einstaklingar sem hafa valið sér margbreytilegan starfs- vettvang, ekki síður en þeir höfundar sem voru í fleti fyrir. Sem dæmi um þennan fjölbreytileika má nefna að nýbraut- skráðir nemendur frá Háskólanum á Akureyri hafa sumir fundið farveg í Súlum fyrir niðurstöður rannsókna sinna. Það er ánægjuleg þróun sem með öðru styrkir nauðsynleg tengsl háskólans við það samfélag sem hann á mest undir. Þessi þátttaka háskólamenntaðra á síðum Súlna er væntanlega var- anleg og af henni hefur meðal annars leitt að viðfangsefnin liggja ekki lengur flest utan verkefnasviðs „lærdóms- og fræðimanna,“ eins og Erlingur Davíðsson orðaði það svo skemmtilega í upphafsávarpi sínu. Tíminn er skrítin skepna og valt að spá um framtíð Súlna til lengri tíma þótt hér skuli þeim einlæglega óskað langra líf- daga. Ritstjórar og ritnefnd þurfa á öllum tímum að horfa til margra átta, vega og meta starf og stefnu, taka hóflegt mið af tíðaranda, leita nýrra höfunda og lesenda. Ef það tekst er engin ástæða til að ætla annað en æviganga þessa mikilvæga rits verði til muna lengri en flestra okkar sem nú erum á dög- um.

Konurr ein3.jpg

Fyrirspurn varðandi Súlur

bottom of page